Fara í efni

Mannamót Markaðsstofa landshlutanna

Mannamót Markaðsstofa landshlutanna verða haldin 15. janúar 2026

Mannamót Markaðsstofa landshlutanna er árleg ferðakaupstefna sem haldin er af Markaðsstofum landshlutanna.

Mannamót markaðsstofanna er kynningarvettvangur ferðaþjónustunnar á landsbyggðinni og tækifæri til að koma á fundum fagaðila í greininni.

Einungis samstarfsfyrirtæki markaðsstofanna geta tekið þátt sem sýnendur í Mannamótum. Öllum er frjálst að mæta á viðburðinn og enginn aðgangseyrir er fyrir gesti.

Markmið og tilgangur viðburðarins er að skapa vettvang þar sem landsbyggðarfyrirtæki fá tækifæri til að kynna sína þjónustu og vöruframboð fyrir ferðaþjónustuaðilum sem staðsettir eru á höfuðborgarsvæðinu. Ísland hefur mikið upp á að bjóða og Mannamót hjálpa til við að mynda tengsl innan ferðaþjónustunnar. Gestum á Mannamótum gefst kostur á kynna sér það sem mismunandi landshlutar eru að bjóða uppá.

Mannamót hluti af Ferðaþjónustuvikunni

Dagarnir 13. – 15. janúar 2026 verða helgaðir ferðaþjónustu. Þá verður lögð áhersla á að auka vitund um mikilvægi ferðaþjónustu og efla samstarf og fagmennsku í greininni með fróðlegri og skemmtilegri dagskrá undir merkjum Ferðaþjónustuvikunnar.

Aðstandendur Ferðaþjónustuvikunnar eru Markaðsstofur landshlutanna, Íslenski ferðaklasinn, Samtök ferðaþjónustunnar, Ferðamálastofa og Íslandsstofa.

MANNAMÓT MARKAÐSSTOFA LANDSHLUTANNA 2026
Markaðsstofur landshlutanna, í samvinnu við Isavia Innanlandsflugvelli og Keflavíkurflugvöll, og Icelandair, setja upp ferðakaupstefnuna Mannamót fyrir samstarfsfyrirtæki sín 15. janúar 2026. Viðburðurinn verður haldinn í Kórnum í Kópavogi.

Upplýsingar til sýnenda      Upplýsingar til gesta

Enginn aðgangseyrir er fyrir gesti á sýninguna

Að þessu sinni sendum við einnig út boðskort til erlendra ferðaskrifstofa og hvetjum við alla þátttakendur til að bjóða sínum tengiliðum. Við gerum þó ekki ráð fyrir miklum fjölda erlendra aðila í ár en erum að láta vita að þetta sé árlegt svo hægt sé að undirbúa þátttöku fyrir næsta ár ef áhugi er á.

Samstarfsaðilar Mannamóta Markaðsstofa landshlutanna 2026

Isavia Innanlandsflugvellir og Keflavíkurflugvöllur

Með öflugum rekstri flugvalla leggur starfsfólk Isavia grunn að bættum lífsgæðum um allt land. Flugvellir eru mikilvægur hlekkur í samgöngukerfi þjóðarinnar og með góðum flugtengingum til landsins og milli landsbyggðar og höfuðborgar er lagður grunnur að góðum samskiptum innanlands.

Keflavíkurflugvöllur er stóra gáttin inn í landið og leikur þannig lykilhlutverk við að skapa lífsgæði og velsæld á Íslandi. Frá opnun KEF hafa umsvif vallarins þróast með samfélaginu og sívaxandi fjölda farþega. Þróun Keflavíkurflugvallar felur í sér mikla fjárfestingu til framtíðar sem fjármögnuð er með tekjum af starfsemi Keflavíkurflugvallar.

Stækkun flugstöðvar, efling innviða, úrbætur á flugbrautakerfi og bætt aðkoma að flugstöðinni eru dæmi um verkefni sem munu gera Keflavíkurflugvelli mögulegt að bjóða betri upplifun og þjónustu, nýta tækniþróun og skapa ný tækifæri.

Á sama tíma og þróun Keflavíkurflugvallar stendur yfir fara þúsundir ferðalanga um hann á degi hverjum enda er KEF aðalviðkomustaður fyrir ferðamenn sem vilja skoða náttúrufegurð og menningararf Íslands.

Innanlandsflugvellir sér um rekstur 12 áætlunarflugvalla og 35 lendingarstaða víðsvegar um landið. Reykjavíkurflugvöllur, Akureyrarflugvöllur og Egilsstaðaflugvöllur eru auk þess alþjóðaflugvellir og hefur verið stöðug aukning í millilandaflugi til Akureyrar síðustu misserin. Flugfélög hafa skoðað möguleika á báðum flugvöllunum á Norðausturlandi af miklum áhuga.

Árangur samstarfs við Markaðsstofu Norðurlands og Austurbrúar og Íslandsstofu , þar sem unnið hefur verið sameiginlega að því að kynna nýjar gáttir til Íslands, hefur sýnt sig í ánægju flugfélaga og viðskiptavina þeirra sem nýtt hafa þetta tækifæri.

Frekari upplýsingar um Keflavíkurflugvöll má finna á www.keflavikurflugvollur.is og www.kefairport.is Frekari upplýsingar um Innanlandsflugvelli má finna á www.innanlandsflugvellir.is



Icelandair
er leiðandi flugfélag sem býður ferðir til, frá og í gegnum Ísland, auk þess að bjóða upp á innanlandsflug. Félagið er því hagstæður kostur þegar kemur að ferðalögum yfir Atlantshafið. Við einbeitum okkur að því að veita viðskiptavinum okkar áreiðanlegar flugferðir og framúrskarandi þjónustu. Icelandair flýgur bæði til fjölda stórborga í Evrópu, Bandaríkjunum og Kanada, og til áfangastaða innanlands og á Grænlandi.

Félagið notar staðsetningu Íslands mitt á milli Ameríku og Evrópu sem viðskiptatækifæri og hefur byggt upp alþjóðalegt leiðakerfi með Ísland sem miðpunkt.

Tímasetningar

  • Sýningarsalur tilbúinn fyrir uppsetningu þátttakenda kl. 10:30
  • Uppsetning milli kl. 10:30-12:00
  • Opið fyrir söluaðila 12:00-14:00
  • Opið fyrir ferðaþjónustu gesti: 12:00 – 17:00
  • Lokaviðburður, staðsetning auglýst síðar, 20:00-21:30

Gott að vita

Fjölnotamál skipta máli: Boðið verður upp á kaffi og vatn. Við hvetjum alla til þess að taka með sér fjölnotamál til þess að takmarka notkun á einnota málum.

Dagskrá Ferðaþjónustuviku

Öll fyrirtæki í ferðaþjónustu geta tekið þátt

Fyrirtæki sem ekki eru aðilar að markaðsstofu geta haft samband við sína landshlutaskrifstofu en tengiliðaupplýsingar þeirra má finna í fætinum hér fyrir neðan.

Markaðsstofur landshlutanna hvetja öll fyrirtæki í ferðaþjónustu til að taka þátt í Mannamóti og nýta tækifærið til kynningar og sölu á sínu fyrirtæki. Þetta er einstakt tækifæri til að efla tengsl við núverandi viðskiptavini, mynda ný tengsl og ekki síður til að kynnast samstarfsaðilum um allt land.

Fyrirtæki af öllum stærðum og gerðum, gömul og ný frá öllum landshlutum

Mannamót hefur þá sérstöðu að í sýningunni taka þátt fyrirtæki af öllum stærðum og gerðum, gömul og ný, frá öllum landshlutum. Uppsetningin og aðstaðan er hrá, óformleg og gefur góða mynd af sérkennum svæðanna sem hefur vakið ánægju bæði gesta og sýnenda. Markaðsstofurnar senda út þjónustukönnun eftir hverja sýningu þar sem aðilum gefst kostur á að koma skoðun sinni á framfæri og reynum við að aðlaga þjónustuna og skipulagið hverju sinni að þeim athugasemdum og tillögum sem koma fram.

Ef spurningar vakna varðandi þátttökuna hafðu þá samband við þína markaðsstofu.

Norðurland: info@nordurland.is
Vestfirðir: travel@westfjords.is
Vesturland: info@west.is 

Suðurland: info@south.is
Reykjanes: info@visitreykjanes.is
Austurland: east@east.is

Hlökkum til að eiga frábæran dag með ykkur á MANNAMÓTUM MARKAÐSSTOFA LANDSHLUTANNA 2026!
Markaðsstofur landshlutanna